Fundargerð
aðalfundar Hollvinasamtaka Þórðar Halldórssonar frá
Dagverðará fyrir
2011 og 2012.
Laugardaginn 25. maí 2013 var haldinn aðalfundur
Hollvinasamtaka Þórðar Halldórssonar frá Dagverðar á í
Eldfjallasafninu í Stykkishólmi.
Fundur hófst kl. 17 með setningu
formanns, Reynis Ingibjartssonar. Gerði hann uppástungu um
fundarstjóra, Hauk Þórðarson og í fjarveru ritara, Ólínu
Gunnlaugsdóttur var stungið upp á formanni sem
fundarritara. Þessar uppástungur voru samþykktar.
Formaður flutti síðan skýrslu stjórnar,
sem var með stysta móti að þessu sinni. Ekki var haldinn aðalfundur
á árinu 2012. Á undan aðalfundinum var forsýning á
heimildarmynd Kára Schram um Þórð í Eldfjallasafninu. Þakkaði
Reynir Kára þolinmæðina við gerð myndarinnar sem senn
verður fullbúin til frumsýningar. Í myndinni birtist Þórður
ljóslifandi og stöðugt voru að bætast við myndbrot sem
gera þessa mynd að ómetanlegri heimild um einstakan mann. Nú
er bara eftir að ljúka við endanlega gerð og fjármögnun
myndarinnar.
Þessu næst kynnti gjaldkeri, Ragnheiður
Víglundsdóttir, reikninga fyrir starfsárin 2011 og 2012.
Eigið fé í árslok 2012 var kr. 366.221 og í sjóði voru
kr. 291.221. Þá kom fram að greiddar hafa verið kr.
1.750.000 við gerð heimildarmyndarinnar. Ekki voru innheimt
félagsgjöld á árunum 2011 og 2012.
Reikningarnir voru síðan samþykktir
samhljóða.
Fráfarandi stjórn var endurkjörin en hún
er þannig skipuð að Reynir Ingibjartsson er formaður, Ólína
Gunnlaugsdóttir ritari og Ragnheiður Víglundsdóttir
gjaldkeri. Meðstjórnendur eru: Haukur Þórðarson og Sæmundur
Kristjánsson. Í varastjórn: Stefán Jóhann Sigurðsson og
Svala Þyrí Steingrímsdóttir. Þá voru þeir: Skúli
Alexandersson og Jón Svavar Þórðarson endurkjörnir skoðunarmenn
reikninga.
Þá var rætt um félagsgjald fyrir árið
2013. Var samþykkt að það verði kr. 2000.- eða sama upphæð
og áður var.
Undir liðnum önnur mál gerði Kári
Schram grein fyrir vinnu við gerð heimildarmyndarinnar og ákveðið
er að frumsýna myndina í nóvember n.k. Hugsanlega verður
hún áður sýnd á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg á
Patreksfirði.
Vinnan framundan er fyrst og fremst við
að bæta hljóðgæði og texta. Fyrst verður myndin sýnd
í Bíó Paradís í Reykjavík og væntanlega á helstu þéttbýlisstöðum
á Snæfellsnesi. Þá vonast Kári til að myndin fari á
kvikmyndahátíðir erlendis og svo verður hún sýnd í sjónvarpinu
næsta vetur – kannski um jólin.
Kári var spurður hvað vantaði af
peningum til að klára myndina og nefndi Kári um eina og hálfa
milljón. Umræðurnar snérust síðan um að afla þess fjár.
Loforð eru fyrirliggjandi hjá nokkrum aðilum og svo þarf að
ræða við fleiri. Sérstaklega var bent á Lista og
menningarnefnd Snæfellsbæjar , Markaðsstofu Vesturlands og
Þróunarfélag Snæfellsness. Var samþykkt að Reynir og Kári
færu yfir þessa kosti hið fyrsta og bréf síðan sent á
viðkomandi aðila sem yrði fylgt eftir með viðtölum. Nú
ætti að vera auðveldara að afla fjár þar sem myndin væri
næstum fullbúin.
Þá var rætt um að gera myndband af
myndinni sem styrktaraðilar fengu síðan í hendur.
Fundarmenn lýstu mikilli ánægju með
forsýningu myndarinnar og það var spenningur í loftinu.
Loks var rætt um kynningu á
hollvinasamtökunum og tengsl við félagsmenn. Póstlistinn
lenti í hremmingum og buðust fundarmenn til að koma honum
í lag. Þá eru samtökin komin með facebooksíðu.
Fundarstjóri sleit síðan fundi og óskaði fundarmönnum góðrar
heimferðar.
Alls sátu þennan aðalfund 14 manns og
Eldfjallasafninu voru færðar þakkir fyrir aðstöðuna.
Reynir Ingibjartsson, fundarritari.
13.11.2011
Aðalfundur samtakana var haldin á afmælisdegi
Þórðar 25.11.2011.
Hér er fundargerðin.
Fundargerð
aðalfundar Hollvinasamtaka Þórðar Halldórssonar frá
Dagverðará.
Föstudaginn 25. nóvember 2011 var
haldinn aðalfundur Hollvinasamtaka Þórðar Halldórssonar
frá Dagverðará í Lýsuhólsskóla í Staðarsveit.
Fundur hófst kl. 15.30 með setningu
formanns, Reynis Ingibjartssonar. Gerði hann uppástungu um
fundarstjóra, Hauk Þórðarson og í fjarveru ritara, Ólínu
Gunnlaugsdóttur var stungið upp á formanni sem
fundarritara. Þessar uppástungur voru samþykktar.
Formaður flutti skýrslu stjórnar sem
var með stysta móti að þessu sinni. Hann minntist þess
fyrst að aðalfundurinn væri haldinn á fæðingardegi Þórðar,
25. nóvember 1905.
Aðalverkefni starfsársins var að
fylgja eftir gerð heimildarmyndarinnar um Þórð, sem Kári
Schram, kvikmyndagerðarmaður hefur unnið að undanfarin ár.
Hefur formaður átt nokkra fundi með Kára og nú hillir
undir að verkið sé að klárast. Kári var mættur á
fundinn og var umræðum um myndina frestað þar til í lok
fundarins, þegar sýndir voru hlutar úr myndinni.
Þessu næst kynnti gjaldkeri, Ragnheiður
Víglundsdóttir, reikninga fyrir starfsárið 2010. Félagssgjöld
sem innheimtust á árinu voru kr. 95.250.- og eigið fé í
árslok kr. 717.126.-.
Í umræðum um starfsemina kom m.a. fram
að bæta þyrfti tengslanet félagsmanna og heimasíða ein
og sér þjónaði ekki lengur þeim tilgangi. Var formanni ásamt
Hauki og Ólínu falið að opna facebooksíðu fyrir félagið
og tengja hana við heimasíðuna.
Þá var rætt um nauðsyn þess að
safna saman öllum þeim fjölda af sögum, sem lifa hjá fólki
um Þórð og hann hefur ýmist sagt eða sagðar hafa verið
af honum. Facebooksíða gæti hjálpað til við þá vinnu
og það þyrfti jafnvel að auglýsa eftir sögumönnum og láta
taka upp sögurnar og safna saman, hugsanlega í bók.
Reikningar voru síðan samþykktir
samhljóða.
Fráfarandi stjórn var endurkjörin en hún
er þannig skipuð að Reynir Ingibjartsson er formaður, Ólína
Gunnlaugadóttir ritari, Ragnheiður Víglundsdóttir ritari.
Meðstjórnendur eru: Haukur Þórðarson og Sæmundur Kristjánsson.
Varastjórn var endurkjörin Stefán Jóhann í Ólafsvík og
Svala Þyri Steingrímsdóttir í Hafnarfirði. Skoðunarmenn
reikningar verða áfram Skúli Alexandersson á Hellisandi og
Jón Svavar Þórðarson á Ölkeldu í Staðarsveit.
Þá var rætt um félagsgjald. Var ákveðið
að innheimta það ekki fyrir árið 2011, en það verði óbreytt
– kr. 2.000.- fyrir árið 2012.
Undir liðnum önnur mál voru sýndir
kaflar úr væntanlegri heimildarmynd um Þórð. Kári hefur
klippt saman efni úr miklu safni af myndefni og ýmsum upptökum,
sem hann hefur aflað. Ljóst er að mikið vandaverk verður
að velja úr öllu því efni, en fundarmenn lýstu ánægju
sinni með það sem sýnt var og Kári fékk margar
fyrirspurnir um myndina.
Kári stefnir að því að myndin verði
tilbúin næsta vor og fyrst verði lögð áhersla á að sýna
hana á ýmsum kvikmyndahátíðum áður en hún fer í
almennari dreifingu.
Ekki var fleira undir önnur mál og
fundarstjóri sleit fundi, en kaffi var í boði Lýsuhólsskóla.
Reynir Ingibjartsson, fundarritari.
1.06.2008
Nú er aðalfundi samtakana
lokið og mættu um 20 meðlimir og áttu góðan fund.
Fundargerðin er komin á vefinn og ársskýrslan er
hér.
Skýrsla
formanns Hollvinasamtaka Þórðar Halldórssonar frá Dagverðará
fyrir starfsárið frá 13. maí 2007 til 31. maí 2008, flutt
á aðalfundi á Lýsuhóli.
Góðir fundarmenn.
Í framhaldi af síðasta aðalfundi, sem
haldinn var hér á Lýsuhóli, 13. maí í fyrra, skipti nýkjörin
stjórn með sér verkum þannig að Reynir Ingibjartsson var
áfram formaður og Ólína Gunnlaugsdóttir ritari, en Ragnheiður
Víglundsdóttir tók við gjaldkerastarfinu af Stefáni Jóhanni
Sigurðssyni. Áfram sátu í aðalstjórn: Haukur Þórðarson
og Sæmundur Kristjánsson og í varastjórn: Aðalheiður
Hallgrímsdóttir og Stefán Jóhann Sigurðsson.
Stefán Jóhann hélt vel um sjóðinn og
eru hér með ítrekaðar þakkir til hans fyrir alla alúðina.
Verkefni stjórnar á þessu starfstímabili
var að stærstum hluta að standa fyrir ljósmyndasýningunni
um Þórð í vitanum á Malarrifi, sem búið var að ákveða
að halda sumarið 2007. Það
var einstaklega skemmtilegt verkefni. Fyrst var að afla
styrkja og undirbúa sýningarskrá og upplýsingar um staðinn.
Haft var fyrst samband við útibússtjóra Landsbankans í Ólafsvík
og sótt um 150 þús. króna styrk. Eftir nokkra bið kom
svarið úr höfuðstöðvunum – því miður. Ekki var þó
gerist upp heldur haft samband við Gísla Kjartansson hjá
Sparisjóði Mýrasýslu. Þar var beiðnin samþykkt upp á
krónu og það tók ekki viku að klára málið. Við kunnum
Sparisjóðnum bestu þakkir fyrir stuðninginn.
Nú var hægt að gera veglega sýningarskrá
og tók undirritaður að sér að setja saman texta um Þórð
og ljósmyndasýninguna og eins um Malarrif og umhverfi. Jón
B. Guðlaugsson snaraði öllu svo á ensku og kom það sér
vel á sýningartímanum. Ekki þurfti að ganga frá ljósmyndum,
þar sem sýningin var frágengin á árinu 2005 og hægt að
setja hana upp hvar sem er með engum fyrirvara.
Þau Haukur og Ólína sá um uppsetninguna í
Malarrifsvita og naut hún sín sérlega vel í vitanum.
Þá fæddist sú góða hugmynd að bjóða
myndlistarmanni að vera með í sýningunni í vitanum og sýndi,
Ásdís Arnardóttir frá Brekkubæ, verk sín á einum
pallinum í vitanum. Mæltist það afar vel fyrir.
Í góðu
samstarfi við Siglingastofnun og Þjóðgarðinn Snæfellsjökul,
var ákveðið að hafa sýninguna opna um helgar frá 30. júní
til 6. ágúst frá kl. 10 til 16 og tóku stjórnarmenn og félagsmenn
í Hollvinasamtökunum að sér að vera á staðnum skiptis.
Gekk það allt eins og í sögu.
Laugardaginn 30. júní var svo sýningin
opnuð og gerði það sú ágæta listakona og fjölmiðlakona;
Rósa Ingólfsdóttir með tilhrifum og veðrið lék við
gesti. Eftirminnilegastur varð þó kannski söngurinn í
vitanum, en ungur söngvari; Unnar Geir Unnarsson söng þar
á efsta palli: ,,Brennið þið vitar” og kom hljómburðurinn
sannarlega á óvart.
Þessi opnun var öllum viðstöddum,
eftirminnileg og umhverfi Malarrifs, skartaði sínu fegursta.
Sýningunni lauk svo á frídegi
verslunarmanna og höfðu rúmlega 1300 manns skráð sig í
gestabókina eða um 100 manns á hverjum degi sem opið var.
Ætla má að gestir hafi verið a.m.k. 1500 því alltaf
gleyma einhverjir að skrá sig. Margir erlendir ferðamenn
komu í vitann og óhætt er að fullyrða að þeir jafnt og
Íslendingarnir, áttu þarna eftirminnilega stund og harðfullorðið
fólk lagði á sig allar tröppurnar og upp í útsýnisrýmið.
Í innganginum og vitanum var komið
fyrir ýmsum munum sem tengdust Þórði svo og ljósritum af
viðtölum við hann í blöðum og tímaritum. Þá voru vel
þegin framlög í bauk í anddyrinu og þeir sem lögðu 1000
kr. í hann, fengu kortapakka af Snæfellsnesi að launum.
Safnaðist drjúgt í baukinn og virkaði vel, að bjóða fólki
að tæma í hann smámyntina, áður en haldið var upp tröppurnar.
Ég vil þakka öllum þeim sem lögðu hönd
á plóg við ljósmyndasýninguna um Þórð Halldórsson frá
Dagverðará á hans heimslóðum sumarið 2007 og vonandi á
sýningin eftir að fara aftur upp á veggina í vitanum.
Góðvinur Þórðar, Jón B. Guðlaugsson
hafði svo frumkvæði að því að ljósmyndasýningin var
sett upp í Þjóðarbókhlöðunni í Reykjavík sl. haust.
Var hún þar uppi í um 2 mánuði frá september til októberloka.
.Á sama tíma var þar sýning um Jón Sveinsson (Nonna) og
hlaut sú sýning mestu athyglina. Margir eiga leið um Þjóðarbókhlöðuna
og ýmsir hafa eflaust gefið sér tíma til að líta við hjá
þjóðsagnapersónunni undir Jökli.
Ýmsir sem komu á sýninguna í
Malarrifsvita sl. sumar, lögðu einnig leið sína að Dagverðará
á stað þeirra systkina, Þórðar og Helgu. Þá var farið
að velta fyrir sér ástandi og framtíð gamla íbúðarhússins
á Dagverðará, sem orðið hefur að hluta landslagsins í tímans
rás. Nú standa
einungis berir steinveggirnir eftir og veður og vindar vinna
sitt verk samviskusamlega.
Hjá ýmsum velunnurum staðarins, hafa kviknað þær
hugmyndir að gera upp húsið og finna því viðeigandi
hlutverk. Málið
kom inn á borð stjórnar Hollvinasamtakanna í ágúst sl.
og var niðurstaðan, að Hauki Þórðarsyni, Reyni
Ingibjartssyni og Skúla Alexanderssyni var falið að kanna
stöðu mála hjá eigendum Dagverðarár, sem munu vera allt
að fimmtán talsins. Ekkert hefur orðið úr fundum ennþá
og dró það úr mönnum, að einn úr hópi eigenda Dagverðarár,
Ólína Gunnlaugsdóttir, lenti í alvarlegu umferðaslysi á
þessum tíma og má þakka fyrir að vera með okkur í dag.
Kannski sannaðist að hún á jafn mörg líf og Þórður á
sínum tíma. Ég get þó nefnt að ég orðaði húsið á
Dagverðará við einn af áhugamönnunum um endurbyggingu hússins
– Davíð Scheving Thorsteinsson, þann kunna athafnamann og
hann benti mér á einstaklinga til að ræða málið frekar.
Ekkert hefur þó orðið úr því og það býður næstu
stjórnar að halda viðræðunefndinni við efnið.
Eitt af aðalmarkmiðum
Hollvinasamtakanna er að vekja athygli á Lýsuhóli sem
heilsulind og möguleikunum þar að nýta heita vatnið og ölkelduvatnið
í þeim tilgangi. Fyrir nokkru var stofnuð Orkuveita Staðarsveitar
og eiga Hollvinasamtökin þar lítinn hlut. Því miður hafa
boranir á staðnum ekki skilað því sem vænst var – ennþá,
en nú eru komnar fram athyglisverðar hugmyndir um baðlaug
sem nýtir sér auðlindir staðarins. Verður fróðlegt að
fylgjast með því máli og kannski á hún eftir að heita;
Þórðarlaug, en Þórður hafði eins og kunnugt er – ódrepandi
trú á mætti ölkelduvatnsins.
Þegar Hollvinasamtökin voru stofnuð árið
2005, var strax ákveðið að láta gera heimildarkvikmynd um
Þórð og Kári G. Schram fenginn til þess verks. Nokkuð
hefur það verk dregist eins og gengur með slík verkefni,
en Kári á nú þegar mikið af efni sem búið er að taka
upp og aðeins eftir að klára verkið. Vonandi verður því
lokið á þessu ári og það verður mjög spennandi að sjá
útkomuna, enda aðaleikarinn með þeim betri í faginu þó
að aldrei færi hann í leikskóla nema þá skóla lífsins.
Hér hefur verið stiklað á því
helsta sem á dagana hefur drifið á liðnu starfsári og
allt hefur þetta verið indælt stríð. Formlegir stjórnarfundir
voru tveir, en margvísleg samskipti utan þeirra. Ég þakka
samstjórnarmönnum mínum fyrir ánægjulegt ár og kannski
erum við rétt að byrja. Húsráðendum hér á Lýsuhóli
þakka ég gott skjól fyrr og síðar.
Takk fyrir.
Reynir Ingibjartsson.
11.09.2007
Ljósmyndasýning um
Þórð Halldórsson frá Dagverðará í Þjóðarbókhlöðunni.
Opnuð hefur verið í Þjóðarbókhlöðunni
í Reykjavík, ljósmyndasýning um Þórð Halldórsson frá
Dagverðará undir Jökli á Snæfellsnesi. Um er að ræða
nærri 50 ljósmyndir m.a. myndir sem voru á heimsalmanaki
KODAK 1973.
Sýningin verður opin á
opnunartíma Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns mánd-fimd.
kl. 8.15 - 22, föstd. kl. 8.15 - 19 og um helgar kl. 10 -
17.
Á sama stað er einnig sýning
um Jón Sveinsson - Nonna í tilefni þess, að 150 ár eru
liðin frá fæðingu hans. Báðar sýningarnar verða
opnar til 6. október n.k. og hugsanlega verður sýningin
um Þórð eitthvað lengur.
Myndir þessar voru í sumar til
sýnis í vitanum á Malarrifi á Snæfellsnesi og vöktu
mikla athygli, enda vitinn mjög sérstakur sýningarstaður.
Nú njóta landsmenn þessa umhverfis í kvikmynd Guðnýjar
Halldórsdóttur - Veðramót. Upphaflega var ljósmyndasýningin
sett upp sumarið 2005, en þá voru liðin 100 ár frá fæðingu Þórðar
og það sama ár voru stofnuð sérstök hollvinasamtök,
kennd við Þórð.
Þórður var um margt einstakur
maður - raunar margir menn. Þekktastur var hann sem
refaskytta og málari, en hann var líka skáld gott og
einstakur frásagnarmaður. Ölkelduvatnið var hans uppáhaldsdrykkur
og hann hafði þá trú að fyrr eða síðar myndu rísa
heilsulindir á Snæfellsnesi og nýta sér ölkelduvatnið.
Með kveðju,
Hollvinasamtök Þórðar Halldórssonar
frá Dagverðará.
Nánari upplýsingar:
sími: 5654282/8247282
26.06.2007
Ljósmyndasýning um
Þórð frá Dagverðará í Malarrifsvita í sumar.
Laugardaginn 30. júní n.k. verður
opnuð í vitanum á Malarrifi á Snæfellsnesi, ljósmyndasýning
um Þórð Halldórsson frá Dagverðará. Um er að ræða
nærri 50 ljósmyndir m.a myndir sem voru á heimsalmanaki
KODAK 1973.
Sýningin verður opin um helgar
frá kl. 10 til 16 og síðasta sýningarhelgi verður
verslunarmannahelgin.
Myndir þessar voru upphaflega sýndar
á Snæfellsnesi 2005, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu
Þórðar. Það ár voru stofnuð sérstök hollvinasamtök,
kennd við Þórð og markmiðið að halda á lofti
minningu þessa merkilega Jöklara, en segja má að í
honum byggju margir menn. Þekktastur var hann sem
refaskytta og málari, en hann var líka skáld gott og
einstakur frásagnarmaður. Ölkelduvatnið var hans uppáhaldsdrykkur
og hann hafði þá trú að fyrr eða síðar myndu rísa
heilsulindir á Snæfellsnesi og nýta sér ölkelduvatnið.
Rósa Ingólfsdóttir fjölmiðlakona,
mun opna sýninguna laugardagsmorguninn 30. júní n.k. kl.
10 og þá er hugmyndin, að láta reyna á hljómburðinn
í vitanum með söng -og tónlistarflutningi.
Auk ljósmyndanna, mun Ásdís
Arnardóttir myndlistarmaður og ættuð undan Jökli, sýna
í vitanum sem gestalistamaður Hollvinasamtakanna.
Vitinn á Malarrifi er
einn glæsilegasti viti landsins og hefur verið settur á sérstaka
verndarskrá. Aðstaða í vitanum til sýningarhalds
er mjög sérstök og þeir sem komast í hæstu hæðir, njóta
einstaks útsýnis.
Aðgangur að sýningunum er ókeypis,
en hugulsamt væri að muna eftir söfnunarbauk
Hollvinasamtakanna. Þeir sem það gera geta fengið að
launum, vandaðan kortapakka af Snæfellsnesi.
Vegfarendum til glöggvunar,
þá er Malarrif syðsti oddi Snæfellsness, skammt vestan Lóndranga og
örstutt þangað af veginum kringum Snæfellsjökul.
Sumum finnst hvergi fegurri sýn til Jökulsins, en frá
Malarrifi. Það er því ástæða til að hvetja alla sem
leggja leið sína um Þjóðgarðinn um helgar í sumar, að
staldra við í Malarrifsvita.
Geta má þess að gerður hefur
verið vandaður bæklingur um sýninguna og einnig um
Malarrif og nágrenni. Góðum gönguferðum má því bæta
við heimsóknina á Malarrif.
Hollvinasamtök Þórðar Halldórssonar
frá Dagverðará.
06.05.2007
Aðalfundur félagsins verður haldin í
Félagsheimilinu að Lýsuhóli sunnudaginn 13. maí. kl.
14:00
Venjuleg aðalfundarstörf
Stjórnin
20.05.2006
Sælir félagar.
Það er nú liðinn nokkur langur tími síðan hér hefur
verið skrifað. En það er helst í fréttum að þann 13.
maí var aðalfundur félagsins haldinn í félagsheimilinu
að Lýsuhóli. Tuttugu og tveir félagar mættu og áttu
góðan fund og enginn bilbugur á félagsmönnum að stefna
á markmið félagsins á komandi árum. Þegar fundi lauk var
farið í Hellnakirkjugarð og gröf Þórðar heimsótt og
minning hans heiðruð. Þaðan var síðan haldið að
Dagverðará til skyldmenna Þórðar sem buðu upp á
veisluborð að hætti húsfreyja undir jökli. Viljum við
færa þeim kærar þakkir fyrir veitingarnar.

Á myndinni eru fundarmenn aðalfundarins
28.11.2005
Þá er stóri dagurinn liðinn og fór vel fram.
Málþingið mjög fræðandi og skemmtilegt enda topp
fyrirlesarar á ferðinni. Kvöldið heppnaðist líka mjög
vel og mæting heimamanna mjög góð, helst var að margra
félagsmanna sem áttu langt að var saknað. Hér er frétt
frá deginum eins eru komnar myndir frá deginum inn á
myndasíðuna. Þórði barst bréf á afmælisdaginn og
síðan Heilsulind orðinn virk.
Þann
25. nóvember sl. minntust vinir og sveitungar Þórðar Halldórssonar
frá Dagverðará þess, að 100 ár voru liðin frá fæðingu
hans. Þórður sem náði háum aldri, var um margt óvenjulegur
maður - einstakur sagnamaður, málari og skáld, þjóðfræg
refaskytta og veiðimaður, frumkvöðull í heilsurækt og
margreyndur í ýmsum mannraunum.
Hann
var sérstakur áhugamaður um heilsugildi ölkelduvatns, sem
víða finnst á Snæfellsnesi og því þótti við hæfi á
afmælisdaginn, að halda sérstakt málþing um ölkeldur og
heilsulindir á Snæfellsnesi. Voru það Hollvinasamtök Þórðar,
sem stofnuð voru 5. mars sl. sem stóðu að þessu málþingi,
sem haldið var að Lýsuhóli í Staðarsveit í Snæfellsbæ.
Þau
sem fluttu erindi á málþinginu voru: Guðmundur Ómar Friðleifsson
jarðfræðingur, Jón Þorsteinsson gigtarlæknir, Guðmundur
Björnsson endurhæfingarlæknir, Haukur Þórðarson kennari
og Anna G. Sverrisdóttir framkvæmdastjóri Bláa lónsins.
Auk þeirra tóku þeir: Kristinn Jónasson bæjarstjóri og
Friðrik Friðriksson verkfræðingur hjá Hitaveitu Suðurnesja,
þátt í pallborðsumræðum á eftir.
Í
umræðunum var sjónum sérstaklega beint að Lýsuhóli, þar
sem heitt ölkelduvatn streymir upp úr jörðinni. Voru frummælendur
og fundarmenn sammála um að þar væru um margt einstæðir
möguleikar á uppbyggingu fjölþættrar heilsulindar með áherslu
á sérstöðu og heilsugildi ölkelduvatnsins. Til að svo mætti
verða þyrfti nánari rannsóknir og boranir eftir heitu
vatni og vekja þyrfti áhuga fjársterkra aðila á möguleikum
fjölbreyttrar heilsulindar á Snæfellsnesi.
Heilsulindir sem nýta sér ölkelduvatn eru þekktar víða
í Mið-Evrópu og hafa notið mikilla vinsælda í hundruð
ára.
Reyndar
voru uppi stórhuga áform um nýtingu ölkelduvatnsins á Snæfellsnesi
fyrir um 100 árum, en ekkert varð úr þeim og útflutningur
ölkelduvatns rann út í sandinn. Kannski er nú rétti tíminn
runninn upp?
Ferðamönnum
fjölgar mjög ört á Snæfellsnesi og nefna má sem dæmi, að
á Djúpalónssand einan koma um 60 þúsund manns á ári.
Rekstrarmöguleikar heilsulinda að Lýsuhóli og víðar á
Snæfellsnesi ættu því að vera góðir, sé horft til
reynslunnar frá Bláa lóninu, Mývatnssveit og víðar.
Um kvöldið þann 25. nóv. sl. var svo haldin afmælisfagnaður að Lýsuhóli,
Þórði til heiðurs og reyndar var gamli maðurinn sem lést
fyrir rúmum 2 árum, aðal skemmtikrafturinn, en sýndar voru
gamlar upptökur með sagnamanninum, sem sýndi þar sínar
bestu hliðar. Þá tróðu upp listamenn úr hópi heimamanna
og fluttu ljóð Þórðar með nýstárlegum hætti við frábærar
undirtektir. Þjóðsagnapersónan Þórður frá Dagverðará
lifir enn góðu lífi á Snæfellsnesi
10.11.2005
Þá er dagsskráin endanlega ákveðin
þann 25.11 2005
13.10.2005
Nú er hafinn undirbúningur að 100 ára afmælishátíð
Þórðar þann 25. nóv næstkomandi að Lýsuhóli. Dagskrá
dagsins verður í stuttu máli að milli kl. 15.-18 verður
haldið málþing um ölkeldur og heilsulindir með þekktum
og óþekktum fyrirlesurum og pallborði á eftir. Um
kvöldið verður svo haldið afmælishátíð með sögum,
tómlist og myndbrotum. Nánar auglýst síðar.
Fleiri myndir komnar undir liðinn Myndir
16.09.2005
MIKIL ÁNÆGJA MEÐ RATLEIKI
UNDIR JÖKLI.
Það var hress og áhugasamur hópur
sem mætti í Gestastofu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls,
laugardaginn 10. september sl., til að taka við viðurkenningarskjölum
fyrir þátttöku í ratleikjunum undir Jökli. Það voru
Hollvinasamtök Þórðar Halldórssonar frá Dagverðará,
sem stóðu fyrir ratleikjunum: annars vegar um Dagverðarárland
og hins vegar Kringum Snæfellsjökul. Í Gestastofuna voru
mættir um 20 þátttakendur sem komu víða að og biðu í
eftirvæntingu eftir veglegum vinningum í þessum leik, en
hótelhaldarar undir Jökli lögðu þá til. Gistingu á Hótel
Hellnum hlaut; Kristbjörg Soffía Salvarsdóttir úr
Mosfellsbæ fyrir þátttöku í ratleiknum um Dagverðará.
Ársæll Jóhannsson frá Reykjavík vann gistingu á Hótel
Eddu á Hellissandi fyrir þátttöku í ratleiknum kringum
Snæfellsjökul og loks hlaut Ragnheiður Eva Guðmundsdóttir
frá Akranesi vinning fyrir þátttöku í báðum
ratleikjunum, en það er gisting á Hótel Búðum. Blíðskaparveður
brast á þegar afhendingin átti að byrja og drifu sig
þá allir út á veröndina með Faxaflóann á aðra hönd
og Snæfellsjökul á hina. Höfðu menn á orði að nú
hefði Þórður frá Dagverðará verið með puttana í veðrinu.
Þeir sem tóku þátt í þessum skemmtilegu leikjum, lýstu
mikilli ánægju með framtakið hjá Hollvinasamtökunum og
hvöttu til þess, að þessum leikjum yrði haldið áfram.
Til nánari útskýringar ganga ratleikir þannig fyrir sig,
að komið er fyrir merkjum (álplötum) á velvöldum stöðum
og á hverri plötu eru númer og/eða bókstafir, sem sá er
finnur merkið, þarf að skrá inn á lausnablað. Þetta
er leikur fyrir fólk á öllum aldri, en yngsta kynslóðin
var ekki síst áberandi þennan fallega laugardag í
Gestastofunni á Hellnum. Hollvinasamtök Þórðar frá
Dagverðará voru stofnuð í mars s.l. og þann 25. nóvember
n.k. verða 100 ár liðin frá fæðingu Þórðar. Er nú
í undirbúningi ýmislegt á Lýsuhóli í Staðarsveit til
að halda upp á þessi tímamót, en þjóðsagnapersónan
Þórður lifir góðu lífi undir Jökli og miklu víðar.
30.07.2005
Þá hefur vefstjóri loksins tíma til að segja fréttir.
Á færeysku dögunum í Ólafsvík vöru hollvinir
Þórðar mjög áberandi á markaðnum og á
föstudagskvöldið var mikil stemming í Klifi þar sem
ýmsir sagnamenn létu gamminn geisa við góðar
undirtektir gesta sem voru á annað hundrað. Myndir frá
helginni koma von bráðar á vefinn.
Undir hnappnum Fróðleikur er komin liður sem fjallar um
það sem er á döfinni.
Sæmundur hefur farið nokkrar ferðir á slóðir
Þórðar og hér er frétt um þá síðustu.
Vel
heppnuð kvöldferð um slóðir Þórðar
Þriðjudagskvöldið
26. júlí stóðu Hollvinasamtökin ásamt Þjóðgarðinum
Snæfellsjökli fyrir vel heppnaðri kvöldferð um slóðir
Þórðar. Hópurinn gekk hringleið úr Hólavogi að Gáluvík
og um hraunið til baka. Leiðsögumaður í ferðinni var Sæmundur
Kristjánsson og sagði hann frá refaveiðum Þórðar á svæðinu
ásamt viðureignum hans við tröllskessur. Sögunum til staðfestingar
voru skoðuð hlaðin skotbyrgi og steingerð tröll. Ferðin
var afar vel heppnuð, vel á þriðja tug gesta mættu enda
blíðskaparveður þetta kvöld.

Hluti hópsins, Snæfellsjökull í baksýn
17.05.2005
Þann 21.05 föstudag kl 20:00 verður farið upp á
bekkinn svokallaðan í Ólafsvík og lesin frásögn
Þórðar´sem Loftur Guðmundsson skráði um sjóslysið sem
Þórður lenti í veturinn 1954. Þaðan verður haldið í
Pakkhúsið og sýnt myndband með Þórði. Hvetjum alla til
að koma og hlýða á einstaka frásögn með útsýni yfir
staðhætti og rifja upp kynni sín af Þórði eða kynnast
honum í fyrsta sinn.
Frásögnin er komin undir liðnum
Fróðleikur.
04.04.2005
Á síðasta stjórnarfundi var ákveðið að bæta
upplýsingaflæðið til félagsmanna og setja fundargerðir
og félagatal hér inn á vefinn.
Krækjur á það eru undir liðnum fróðleikur hér til
vinstri.
09.03.2005.
Þórði hefur borist eftirfarandi bréf . Hvet alla til
að lesa það og senda Þórði póst á doddi@refaskytta.is
eða smella á Hafa samband hér til hliðar.
Sæll frændi!
Mér
datt í hug að rita þér nokkrar línur í tilefni þess að
ýmislegt er nú verið að gera þér til heiðurs núna
á því ári sem þú verður hundrað ára, eins og
þú stefndir alltaf að. Spurningin er hvort það væri
nú ekki tilvalið, eftir allar sögurnar sem þú hefur
sagt okkur og verið óþreytandi að endurtaka, hvort tími
er nú ekki kominn að við sem notið höfum sagnalistar þinnar,
gjöldum í sömu minnt og förum nú að segja þér sögur
og þá að sjálfsögðu sem tengjast þér, því annars
er hæpið að þær verði skemmtilegar. Ég get sagt
þér það, að fólk lumar á ótrúlegustu sögum af þér
bæði sönnum og lognum, þannig að þér er eins gott að
fylgjast vel með og kíkja oft í póstinn þinn eða á
vefinn.
Héðan
er allt annars ágætt að frétta, fiskerý verið lélegt
í vetur en lifnaði aðeins yfir því um daginn. Svo
er allt er að verða morandi í tófu og mink og alls kona
óværu, enda fæst ekkert fyrir skottin lengur. Jæja,
læt þetta vera gott í bili, skrifa fljótlega aftur, bið
að heilsa ömmu og afa, mömmu og pabba og öllum hinum sem
eru þarna
Þín frænka, Ólína.

Stofnun hollvinasamtaka
Þórðar Halldórssonar frá Dagverðará
Þórður Halldórsson frá
Dagverðará á Snæfellsnesi hefði orðið 100 ára 25. nóvember
á þessu ári en hann lést árið 2003. Þórður var
margbrotinn og fjölhæfur maður, þekktur meðal annars sem
sjómaður, náttúruunnandi, refaskytta, listmálari, hagyrðingur,
sagnamaður og heilsufrömuður.
Mikið efni er til eftir
Þórð svo sem viðtalsbækur, kveðskapur og málverk.
Þórður var mjög áhugasamur
um ölkelduvatn og hollustu þess en fyrstu árin ólst hann
upp í Bjarnarfosskoti í Staðarsveit þar sem ölkeldur eru
nokkrar í næsta nágrenni bæjarins. Hann bjó síðar á
Dagverðará í Breiðuvíkurhreppi og kenndi sig æ síðan
við þann bæ. Eftir að hann fluttist frá Snæfellsnesi gætti
hann þess að eiga ávallt ölkelduvatn til drykkjar, sótti
sér vatnið á kúta og baðaði sig í heita ölkelduvatninu
í Lýsuhólslaug þegar færi gafst. Hann var sannfærður um
að ölkelduvatn til drykkjar og baða héldi við hans góðu
heilsu og atgervi.
Á 99 ára afmælisdegi
hans, 25. nóvember síðastliðinn, kom saman hópur fólks
til að ræða hugmyndir um að heiðra minningu hans með
stofnun hollvinafélags sem hefði meðal annars að markmiði
útgáfu minningarits og heimildakvikmyndar um Þórð, beitti
sér fyrir kynningu og aukinni nýtingu á ölkelduvatni á Snæfellsnesi,
þ.á.m. stofnun heilsubaða við Lýsuhólslaug.
Nú er komið að
stofnfundi hollvinafélags Þórðar Halldórssonar en hann
verður haldinn laugardaginn 5. mars nk. kl. 14:00 í Lýsuhólsskóla
í Snæfellsbæ. Þar munu meðal annarra halda erindi Haukur
Jóhannesson, jarðfræðingur, Kári Schram, kvikmyndagerðarmaður,
Ívar Gissurarson, bókaútgefandi, og fulltrúi frá
Orkuveitu Suðurnesja.
Allir áhugasamir um þau
mál er hér hafa verið talin eru hvattir til að mæta og
taka þátt í stofnun félagsins.
Skráningargjald í félagið
er 1000 krónur.
|